Snjóflóðavarnir Neskaupstað - Uppbygging garða og keila
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1732
- Verkefnastjóri: Á framkvæmdastigi: Jón Heiðar Gestsson, Hafsteinn Steinarsson og Sigurður Hlöðversson
Um verkefnið
Verkið fólst í að reisa snjóflóðavarnargarða og keilur áúthlaupssvæði snjóflóða úr Tröllagiljum. Um er að ræða um 660 m langan þvergarð, um 420 m langan leiðigarð og 24 snjóflóðavarnarkeilur. Í verkinu fólst einnig mótun yfirborðsskeringa flóðmegin við garða og jöfnun yfirborðs garðahlémegin. Þá fólst í verkinu gerð vinnuvega, varanlegra vegslóða, gangstíga og áningarstaða. Jafnframt gerð drenskurða, lækjarfarvega og vatnsrása, lagning ræsa, jöfnun yfirborðs og frágangur. Verkkaupar voru Fjarðabyggð og Ofanflóðasjóður.
Frumathugun
Frumathugun snjóflóðavarna á Tröllagiljasvæði á Norðfirði var unnin af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. og var gefin út í júní 2003. Lagt var til að snjóflóðavarnir á Tröllagiljasvæðinu yrðu stoðvirki á hluta upptakasvæða í 500 til 700 metra hæð, ásamt flóðkeilum og þvergarði á úthlaupasvæði snjóflóðanna til þess að draga úr hraða og stöðva snjóflóð. Að auki var gerð tillaga að byggingu leiðigarðs til að verja vestasta hluta þéttbýlisins gegn snjóflóðum úr Miðstrandargili og Klofagili. Mat á umhverfisáhrifum var kynnt í matsskýrslu í janúar 2004. Mannvirkin eru í samþykktu aðalskipulagi og tillaga að umhverfisskýrslu vegna deiliskipulags var gefin út í ágúst 2008. Meðal mótvægisaðgerða vegna umhverfisáhrifa var gert ráð fyrir framkvæmdum sem bæta svæðið til útivistar, það er tjörn, stígar, bílastæði og upplýsingaskilti.
Áætlunargerð
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði, með bréfi dagsettu 15. apríl 2009, að hefja mætti áætlunargerð fyrir umrædda framkvæmd.
Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri.
Verkleg framkvæmd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði, með bréfi dagsettu 17. janúar 2011, að hefja verklegan hluta framkvæmdarinnar. Boðin var út framkvæmdin Snjóflóðavarnir í Neskaupstað – Tröllagiljasvæði – Varnargarðar og keilur. Alls bárust sex tilboð. Þau voru opnuð 8. mars 2011. Þann 18. apríl 2011 var tilboði Héraðsverks ehf. að fjárhæð 858.815.480 kr. með VSK tekið, sem var 68,3% af kostnaðaráætlun. Gerður var skriflegur samningur um verkið í framhaldi af því að fjárhæð 834.834.155 kr. Framkvæmdir hófust í maí 2011 og þeim lauk árið 2017. Lokaúttekt fór fram 29. október 2015. Ábyrgðarúttekt fór fram 27. apríl 2017. Verktaki við uppsetningu stoðvirkja var Köfunarþjónustan ehf. og verktaki við garða og keilur var Héraðsverk ehf.
Skilamat
Skilamat um verkefnið Snjóflóðavarnir í Neskaupstað var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2011 til 2017 . Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.