Jarðir og auðlindir

Ríkisjarðir

Mikill meirihluti eyðijarða og bújarða í eigu ríkisins er nú á forræði FSRE í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem yfirumsjón ríkisjarðamála er. Yfirumsjón með jörðum og jarðahlutum Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla er einnig hjá FSRE.

Um áramótin 2020/2021 voru skráðar jarðir í eigu Ríkisjóðs Íslands 434 talsins. Af þeim eru 301 jörð í umsjón FSRE. Það eru bæði jarðir í ábúð og eyði.

  • Eigandastefnu ríkisins vegna jarða, landa, lóða og auðlinda í ríkiseigu má sjá hér.
  • Allar jarðir í eigu Ríkissjóðs Íslands má sjá í jarðavefsjá FSRE.
  • Upplýsingar um sölu og leigu jarða og lóða má finna hér.

Auk jarða á ríkið mikið land, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Í sumum tilvikum er um að ræða aflögð lögbýli, víðáttumikil uppgræðslusvæði Landgræðslunnar, skógræktarreiti Skógræktarinnar, svæði sem Varnarliðið hafði til umráða og svo fjölmarga skika og lóðir.

Auðlindir

Jarðrænar auðlindir í eigu ríkisins falla undir verksvið FSRE. Mikil verðmæti geta falist í auðlindum en til jarðrænna auðlinda telst t.d. vatnsafl, jarðhiti, ferskvatn, möl og önnur jarðefni.

Algengast er að auðlindir tilheyri þeim sem landið á. Þetta er þó alls ekki tilfellið með allar seldar ríkisjarðir vegna þess að þau nýmæli voru sett í lög nr. 31/1907 að þar var ákvæði um heimild til að undanskilja réttindi við sölu þjóðjarða og sama gildir um lög nr. 50/1907 um sölu kirkjujarða. Þrátt fyrir margháttaðar breytingar, munu svona heimildaákvæði hafa verið síðan.

Samkvæmt jarðalögum eru hlunnindi á jörðum skilgreind eftirfarandi: „Hlunnindi merkja í lögum þessum hvers konar auðlindir, nytjar aðrar en grasnytjar, lífræn og ólífræn efni og efnasambönd, villt dýr, plöntur, annað lífríki og önnur nýtanleg réttindi sem fylgja jörð.“

Á starfandi löggjafarþingi 2018 – 2019 hefur verið lögð fram tillaga nokkra þingmanna til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda: Tillagan á heimasíðu Alþingis

Í þingsályktuninni er áhugaverð samantekt á mismunandi gerðum auðlinda ásamt tillögu um hvað gæti fallist undir hugtakið auðlindir.

Umsýsla auðlinda

Með ábúð ríkisjarða fylgja yfirleitt mikil réttindi og þeir aðilar sem eru með ábúðarsamninga njóta þá hlunninda eins og veiðiarðs í ám og vötnum, hreindýraarðs, reka og æðarvarps. Einnig hafa þeir ákveðinn rétt til að nýta vatnsafl í litlar virkjanir ásamt því að hafa rétt til að nýta jarðvarma og möl til heimilisnota. Algengast er að auðlindir tilheyri þeim sem landið á.

FSRE, í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytis, taka þátt í undirbúningi útboða og samningaviðræðum um afgjald fyrir nýtingu auðlinda, nytja og gæða á ríkislandi. Þó ekki innan þjóðlendna.

Umsækjandi þarf að óska eftir leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum og sér Orkustofnun um slíkar leyfisveitingar. FSRE, í umboði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem landeigandi, hafa samt svigrúm til að heimila hagnýtingu auðlinda á ríkisjörðum til heimilis- og búsþarfa ábúenda.

Í auðlindaumsýslu felst m.a. samningagerð um endurgjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu eða á forræði ríkisins.