Hverfisgata 113-115, endurinnrétting 1. áfangi, 1. hæð A og B hluti
- Verkkaupi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 609 5013
- Verkefnastjóri: Hafsteinn Steinarsson
- Tímaáætlun: Verklok 15. október 2015
Um verkefnið
Verkefnið fólst í endurbótum á 1. hæð A og B hluta vesturálmu við lögreglustöðina í Reykjavík að Hverfisgötu 113–115. Það náði til niðurrifs, endurinnréttingu á aðstöðu og jafnframt breytingum og endurbótum í kjallara og á 2. hæð í tengslum við nýtt loftræsikerfi fyrir bygginguna. Framkvæmdasvæðið var samtals 1.120 fermetrar.
Frumathugun
Ekki liggur fyrir formleg frumathugun.
Áætlunargerð
Fasteignir ríkissjóðs höfðu umsjón með áætlunargerðinni. Í hönnuninni voru gerðar innanhússbreytingar á skrifstofuhúsnæði 1. hæðar lágbyggingar A og B hluta til vesturs. Í áætlunargerð var lagt til að gólfefni væru fjarlægð og þeim fargað. Kerfisloft væru tekin niður og þeim fargað að hluta og að hluta sett í geymslu til varðveislu og enduruppsetningar. Innihurðir, léttir veggir og salernisbúnaður væri einnig tekinn niður og fargað. Jafnframt innréttingar en innrétting í afgreiðslu væri sett upp aftur. Gólf væru flotuð og dúka- og flísalögð.
Í loftum eru kerfisloft með hljóðísogi. Léttir veggir eru gifsveggir og glerveggir. Eldhúsinnrétting er kaffi-/setustofa í A hluta og kaffieldhús í B hluta. Skolplagnir væru endurnýjaðar og minni háttar breytingar gerðar á skolplögn undir plötu. Lagðar væru nýjar neysluvatnslagnir og þær tengdar við eldri aðfærslulagnir. Ofnar væru endurnýjaðir og allar lagnir meðfram útveggjum og þær tengdar í núverandi stofna. Ný loftræsisamstæða væri staðsett í tæknirými í kjallara. Sett verði upp loftræsikerfi sem komi til með að þjóna öllum rýmum í A og B hluta í framtíðinni. Í byrjun þjónar loftræsikerfið aðeins fyrstu hæð en lagðar eru lagnir upp á aðra hæð og út úr tæknirýminu í kjallara. Allar raf- og fjarskiptalagnir væru endurnýjaðar.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdin fólst í niðurrifi og endurinnréttingu 1. hæð vesturálmu, A og B hluta lögreglustöðvar að Hverfisgötu 113-115, Reykjavík, ásamt niðurrifi eldra loftræsikerfis og að fullgera nýtt loftræsikerfi með loftræsisamstæðu sem staðsett er í kjallara. Lagðar voru nýjar frárennslislagnir í jörðu og innanhúss, ásamt neysluvatnslögnum og hitalögnum og sett upp nýtt rafkerfi.
Verkið var undirbúið af verkkaupa sem er Ríkiseignir. Framkvæmdasýsla ríkisins kom að verkinu í lok áætlunargerðar og undirbjó það til lokaðs útboðs að undangengnu forvali hjá verkkaupa. Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum 20. janúar 2015. Fjögur tilboð bárust og var samið var við lægstbjóðanda, Einar P. & Kó, en tilboðsfjárhæð var 134.673.030 kr. eða 76,5% af kostnaðaráætlun. Verklegar framkvæmdir hófust 16. febrúar 2015 og þeim lauk á árinu 2015.
Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón og eftirlit með verklegri framkvæmd. Verklokaúttekt fór fram 4. desember 2015 og ábyrgðarúttekt 7. desember 2016.