Snjóflóðavarnir við Hornbrekkur, Ólafsfirði
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1770
- Verkefnastjóri: Sigurður Hlöðversson
Um verkefnið
Framkvæmdum við snjóflóðavarnir við Hornbrekku í Ólafsfirði er lokið.
Þriðjudaginn 24. september 2013 var snjóflóðavarnargarðurinn yfir Hornbrekkur í Ólafsfirði vígður. Viðstaddir voru Þorbjörn Sigurðsson, formaður bæjarráðs, Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, og séra Sigríður Munda Jónsdóttir sem blessaði mannvirkið.
Verkkaupar voru Fjallabyggð og ofanflóðasjóður. Sigurður Hlöðversson, verkefnastjóri FSR, hafði umsjón með framkvæmdum fyrir hönd verkkaupa. Verkfræðistofa Siglufjarðar sf. og Teikn á lofti ehf. unnu frumathugun og Verkfræðistofa Austurlands ehf. og Landslag ehf. önnuðust verkhönnun. Verktaki var G.V. Gröftur ehf.
Frumathugun
Verkfræðistofa Siglufjarðar sf. og Teikn á lofti ehf. unnu frumathugun, dagsett í júní 2005, fyrir Ólafsfjarðarkaupstað.
Hraði snjóflóða í hlíðinni er ekki mikill né snjódýpt á upptakasvæðinu, en hraði snjóflóða vex eftir því sem ofar dregur í fjallið. Varnargarður var því staðsettur eins neðarlega og hægt var. Nauðsynleg garðhæð var metin út frá þremur aðferðum, hefðbundinni aðferð, með útreikningi á skriði snjómassa og með tvívíðu reiknilíkani (hermilíkani). Mat þetta var unnið í samráði við Veðurstofu Íslands.
Valkostum var stillt upp og gerð grein fyrir kostum og göllum, ásamt kostnaði og umhverfisáhrifum. Í niðurstöðu frumathugunar var lagt til að reistur yrði 12 metra hár beinn leiðigarður ofan við dvalarheimilið að Hornbrekku í Ólafsfirði með það að markmiði að minnka hættu á snjóflóði á dvalarheimilið niður í ásættanleg mörk. Auk varnargarðs var talið koma til greina að gera 50 metra löng undirgöng í gegnum kjarna garðsins. Hönnunarforsendur gera ráð fyrir að varnargarðurinn aðlagist umhverfinu og því voru hannaðar mótvægistillögur sem draga úr neikvæðum sjónrænum og umhverfislegum áhrifum garðsins. Unnið var að umhverfismótun með stígakerfi þannig að framkvæmdirnar bæti útivistarmöguleika, sérstaklega fyrir skíða- og brettaiðkendur.
Áætlunargerð
Verkhönnun var unnin af Verkfræðistofu Austurlands ehf. Framkvæmdir útboðsáfangans ná til varnargarðsins, ásamt ræsi, tjörn og stígum.
Uppgræðsla og frágangur yfirborðs var boðið út í öðrum útboðsáfanga. Landslag ehf. kom að mestu að þessum áfanga.
Heildarkostnaðaráætlun FSR í apríl 2009, var 217,0 m.kr., þar með talinn áætlaður kostnaður við verkframkvæmd 183,3 m.kr. (samningsgreiðslur, 165,0 m.kr., verðlagsbreytingar og aukaverk), ráðgjöf, umsjón og eftirlit.
Verkleg framkvæmd
23. júní 2009 voru tilboð opnuð. Alls bárust ellefu tilboð. Tilboði G.V. Gröftur ehf. var tekið í júlí 2009 að upphæð 89.786.650 kr. og 76,85% af kostnaðaráætlun . Framkvæmdir hófust í ágúst 2009 og lauk á árinu 2012.
Framkvæmdin fólst í því að gera varnargarð ofan við Hornbrekkur, heimili aldraðra í Ólafsfirði. Garðinum er ætlað að verja Hornbrekkur og liggur hann skáhallt upp í hlíðina ofan hennar. Varnargarðurinn er 320 metra langur og 13 metrar á hæð þar sem hann er hæstur. Heildarefnismagn í garðinum er um 150 þúsund rúmmetrar.
Gert er ráð fyrir að lífrænn jarðvegur og laus jarðlög séu hreinsuð úr stæði garðsins niður á tiltölulega fast skriðuefni sem er á um 1,5-2,5 metra dýpi undir neðsta hluta garðsins en síðan minnkar dýptin á skriðuefnið eftir því sem ofar dregur og er um 0,5 metrar undir efsta hluta hans. Lífrænan jarðveg og laus jarðlög skal leggja til hliðar á tipp til síðari notkunar við landmótun við og utan á garðinn samhliða uppbyggingu stoðfyllingar. Gert er ráð fyrir að efni í stoðfyllingu sé tekið af tipp fyrir útakstur á jarðgangaefni úr Héðinsfjarðargöngum vestan við Ósinn í um 2,3 kílómetra fjarlægð frá garðinum.
Skilamat
Skilamat um snjóflóðavarnir við Hornbrekkur Ólafsfirði var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdir við gerð varnargarðs fóru fram á árunum 2009-2010 en sáning og uppgræðsla stóð yfir frá 2010-213. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.