Þjóðskjalasafn, hús 1 – endurbætur rishæðar
- Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 602 1011
- Verkefnastjóri: Örn Baldursson
- Stærð mannvirkis: 253 fermetrar
- Tímaáætlun: Áætluð verklok 1. ágúst 2015
- Áætlaður kostnaður: Heildar kostnaðaráætlun 104.325.119 kr.
Um verkefnið
Verkefninu er lokið. Ráðast þurfti í umfangsmiklar endurbætur á rishæð húss 1 við Þjóðskjalasafn Íslands, Laugavegi 162, en þetta var fyrsti áfangi framkvæmda af þremur í húsinu vegna viðhalds og breytinga á innra skipulagi. 2. áfangi fólst í múrviðgerðum og málun utanhúss á 1.–3. hæð og 3. áfangi í breytingum á innra skipulagi 1.–3. hæðar (áætlaður 2017).
Áætlunargerð
Laugarvegur 162 skiptist í tvær megin byggingar. Hús 1 á norðurhluta lóðarinnar og hús 2 á suðurhluta lóðar. Rishæðin sem um ræðir er í húsi 1. Húsið er steinsteypt og einangrað að innan, múrhúðað og málað í ljósum lit. Burðarvirki rishæðar er gert úr stálrömmum/grind sem hvílir á útveggjum, ásamt timbur gittersperrum sem liggja milli stálramma. Gólfplötur eru steinsteyptar.
Endurbætur utanhúss:
Samkvæmt áætlunargerð er fyrirhugað að rífa niður og fjarlægja núverandi þakklæðningu, endurbæta þakvirki eftir þörfum og einangra og klæða þak að nýju með læstri zinkklæðninu í samræmi við þak á húsi 2. Enn fremur að skipta út núverandi gluggum.
Á suðurhlið verði komið fyrir inndregnum svölum í tengslum við salina. Gluggi á austurhlið verði fjarlægður og hurð komið fyrir í hans stað til þess að bæta aðgengi að stigapalli flóttaleiðar.
Endurbætur innanhúss:
Breytt innra skipulag rishæðar er 253 m².
Endurnýjun á öllum milliveggjum, klæðningum á útveggjum og loftaklæðningu. Endurnýjun á innréttingum og millihurðum. Allar lagnir, svo sem raf-, hita- og vatnslagnir verði endurnýjaðar og endurgerðar. Komið verði fyrir nýjum fyrirlestrar- og fundarsölum, ásamt kaffistofu og eldhúsi. Eldhúsið er hluti af kaffistofu starfsmanna. Fundarsalur 1 rúmar 45–50 manns í sætin en minni salurinn rúmar 14–16 manns. Hægt verður að samnýta fundarsali við vissar aðstæður.
Sett verði upp loftræsingakerfi fyrir sal og eldhús. Gólfefni endurnýjuð ásamt því að ganga frá brunalokun milli húss 1 og 2. Sett verði upp hjólastólalyfta vegna aðgengi hreyfihamlaða milli bygginga. Gólfplata hæðarinnar verði hreinsuð þar sem raki og mygla finnst og stálvirki hreinsað þar sem það mætir gólfplötu. Flóttastigi á austurgafli verði endurnýjaður til þess að uppfylla kröfur um fólksfjölda.
Verkleg framkvæmd
Í lok janúar 2015 var auglýst eftir tilboðum í verkið. Tilboð voru opnuð þann 10. febrúar 2015 og var verktakinn HK verktakar með lægsta boð. Tilboði hans var tekið 15. mars 2015.