Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ
- Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 602 0034
- Verkefnastjóri: Gíslína Guðmundsdóttir í áætlunargerð og Guðbjartur Á. Ólafsson í verklegri framkvæmd
- Stærð mannvirkis: 4.100 fermetrar
- Tímaáætlun: Áætluð verklok í nóvember 2013
- Áætlaður kostnaður: 1.720 m.kr.
Um verkefnið
Þann 24. janúar 2014 var nýbygging Framhaldsskólans í Mosfellsbæ vígð. Fyrstu nemendur voru útskrifaðir úr skólanum 20. desember 2013 og húsið tekið í notkun í byrjun nýrrar annar í janúar 2014.
Aðalhönnuðir eru a2f arkitektar, en Almenna Verkfræðistofan hf. (nú Verkís hf.) sá um burðarþols- og lagnahönnun, Efla ehf. um hljóðhönnun, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. um rafhönnun, og Drekafluga slf. um lýsingahönnun. VSI ehf. sá um brunahönnun og MFF ehf. um landslagshönnun.
Frumathugun
Kennsla Framhaldsskólans í Mosfellsbæ hefur farið fram í bráðabirgðahúsnæði að Brúarlandi frá árinu 2009. Frumathugun var unnin af FSR að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis og kom út í júní 2009.
Frumathugunin byggir á þarfagreiningu frá mars 2009 sem unnin var af Verkís hf. Stefna skólans gerir ráð fyrir að kennsluhættir einkennist af því að nemendur séu virkir þátttakendur í eigin námi og öðlist sjálfstæði og frumkvæði.
Húsrýmisáætlun miðast við að fyrsti áfangi byggingarinnar verði um 2.800 fermetrar (m2) nettó eða um 4.000 m2 brúttó fyrir 400–500 bóknámsnemendur. Heildarstærð fullbyggðs skóla á lóðinni gæti orðið um 8.000 m2 fyrir um 700 nemendur. Gert er grein fyrir valkostum og niðurstöðu um staðarval, þar sem skólinn verði staðsettur við Bjarkarholt / Háholt í Mosfellsbæ.
Tekið er fram í niðurstöðum frumathugunar að áður en gengið sé frá hönnunarsamningi sé skilgreint hvernig unnið verði að vistvænni hönnun og útfærslu byggingarinnar með hliðsjón af stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist, samanber Menningarstefna í Mannvirkjagerð.
Unnin var samkeppnislýsing í nóvember 2009. FSR auglýsti, fyrir hönd verkkaupa, opna hönnunarsamkeppni í nóvember 2009. Niðurstöður voru kynntar 16. apríl 2009. Alls bárust 39 tillögur.
Fyrstu verðlaun hlaut tillaga a2f arkitekta (architecture cells) höfundar: Aðalheiður Atladóttir, Falk Kruger og Filip Nosek. Ráðgjöf Árni Þórólfsson.
Dómnefndarfulltrúar voru tilnefndir af verkkaupa og Arkitektafélagi Íslands. Fyrir hönd verkkaupa voru Þráinn Sigurðsson, formaður dómnefndar og sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Jóhanna Björg Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar, og Ólafur Sigurðsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, tilnefnd. Fyrir hönd Arkitektafélags Íslands voru Kristín Brynja Gunnarsdóttir, arkitekt FAÍ, og Sigurður Einarsson, arkitekt FAÍ, tilnefnd. Ráðgjafar dómnefndar voru Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Framhaldsskóla Mosfellsbæjar, Flosi Sigurðsson og Guðrún Dröfn Gunnarsdóttir, byggingarverkfræðingar hjá Verkís hf. Ritari dómnefndar var Bergljót S. Einarsdóttir, verkefnastjóri FSR. Trúnaðar- og umsjónarmaður var Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum.
Áætlanagerð
Í framhaldi af hönnunarsamkeppni var gerður hönnunarsamningur við hönnuði vinningstillögu. Byggingin er hönnuð eftir aðferðafræði BIM (Building Information Modelling) eða upplýsingalíkön mannvirkja. Einnig var byggingin hönnuð og vottuð af alþjóðlega BREEAM vottunarkerfinu, sjá nánar um vistvæn vottunarkerfi, þar sem stefnt er að því að ná einkuninni "very good".
Byggingin er á þremur hæðum og skiptist í A og B álmu. Miðrými tengir álmurnar saman. Sex klasar eru í byggingunni, einn listgreinaklasi, fjórir bóknámsklasar og einn raungreinaklasi. Í miðrými eru aðalinngangar, móttaka og bókasafn. Einnig er gert ráð fyrir matsal/fjölnotasal fyrir 200–400 manns, fatahengi og nemendaaðstöðu, aðstöðu fyrir húsvörð, hjúkrunarfræðing og námsráðgjafa, ásamt kennarastofu, fundarherbergi og skrifstofum. Fjöldi nemenda er áætlaður um 400–500 og fjöldi starfsmanna 45–50.
Tillagan er flokkuð sem tvær stangir sem sýnir mjög fallega, áhugaverða og lifandi byggingu þar sem nemendur eru sýnilegir umhverfinu jafnt úti sem inni. Húsið skapar lifandi hlið inn í miðbæ Mosfellsbæjar sem fellur vel að skipulagi og landi í öllum áföngum. Tákn um framtíð og kraft. Heilsteypt bygging og hlýlegt efnisval þar sem flæði úti og inni fléttast saman. Lóðarhönnun er lítið unnin, en rými næst skólanum mynda skjól og góða útiverumöguleika. (Dómnefndarálit)
Byggingin aðlagast umhverfinu og landslaginu á skemmtilegan hátt með efnisvali og formi. Sérstök áhersla er lögð á að skapa fjölbreytt og þægileg setsvæði í tengslum við innganga, ásamt því að ákvæði byggingarreglugerðar um aðgengi fyrir alla er uppfyllt.
Húsið er byggt úr staðsteyptri steinsteypu og sjónsteypu á skammhliðum, málaðar með gráum tón einu sinni til að veðrun verði sem jöfnust. Langhliðar eru klæddar með lerki. Þak er að mestu flatt með gróðurþekju. Manngeng skábraut er í vesturhluta hússins sem hallast til suðurs. Gluggar eru úr tré með „add-on“ kerfi, klæddir áli að utan og með tvöföldu einangrunargleri.
Innra fyrirkomulag er mjög vel leyst og gefur fyrirheit um kraftmikið og líflegt skólastarf. Lausn á fyrirkomulagi klasa er áhugavert og svarar vel væntingum dómnefndar. Megininntak og efnisval tillögunnar er ágætur grunnur að vistvænni byggingu, merkisbera umhverfisstefnu bæjarfélagsins. (Dómnefndarálit)
Að innan eru loft almennt klædd ljósu steinullarfilti með hljóðísogi. Í kennslustofum og matsal er loft niðurtekið með loftadúk einnig með hljóðísogi. Á gólfum er ýmist glerílögn, ílögn eða gólfdúkur. Í anddyri og matsal verður mulið, endurunnið gler sett niður í gólf og það slípað. Þetta er hluti af listskreytingu hússins. Í öðrum almenningsrýmum eru gólf vélslípuð, en línóleumdúkur í klösum.
Byggingin er upphituð með gólfhita í almenningsrýmum og ofnum í kennslustofum og öðrum almennum viðverurýmum. Almennt verður byggingin loftræst náttúrulega og lögð áhersla á orkusparnað í rafmagni og lýsingu.
Aðalteikningar voru lagðar inn í febrúar 2011. Byggingarnefndarteikningar voru samþykktar 8. júní 2011. í framhaldi af því var unnið að fullnaðarhönnun til útboðs. Útboðsgögn voru fullbúin í apríl 2012.
Í umsögn FSR til fjármálaráðuneytisins er heildarkostnaðaráætlun, á verðlagi í febrúar 2012, 1.720 m.kr., þar af er áætlaður kostnaður við verklega framkvæmd 1.360 m.kr. Fjármögnunaráætlun miðast við að 60% komi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og 40% frá Mosfellsbæ.
Listskreyting
Haldin var lokuð samkeppni um listskreytingu byggingarinnar, þar sem fjórum listamönnum var boðið að taka þátt, í samræmi við lög um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð Íslands. Dómnefnd var skipuð af Aðalheiði Atladóttur, arkitekt FAÍ, a2f arkitektar, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari, fyrir hönd verkkaupa, og Birta Guðjónsdóttir myndlistarmaður fyrir hönd Sambands íslenskra listamanna. Ráðgjafi dómnefndar var Falk Kruger arkitekt og Gíslína Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá FSR, var ritari og trúnaðar- og umsjónarmaður.
Í samkeppnisgögnum er tekið fram að við mat á tillögum er miðað við að tillagan falli vel í bygginu, að hugmynd sé í anda hugmyndafræði skólans, að tillagan hafi listrænt gildi og sé innan kostnaðarviðmiða. Samkeppnisgögn voru afhent 15. júní 2011 og skilafrestur tillagna var 25. júlí 2011.
Niðurstaða dómnefndar lá fyrir 28. júlí 2011. Tillagan Frjór jarðvegur til framtíðar eftir Bryndísi Bolladóttur myndlistarmann var valin. Í umsögn dómnefndar er tekið fram að hugmyndirnar séu frumlegar og spennandi, með góðri tengingu við bygginguna og umhverfið. Litaval og efnisval séu í áhugaverðum tengslum innbyrðis og við bygginguna. Glansandi gler í gólfi, andspænis mattri ull í kúlum, sé áhugaverð andstæða, þar sem endurunnið glerið sé skemmtileg tenging við endurnýtingu efna og stefnu skólans. Hálfkúlur úr þæfðri ull sé sterk hugmynd, sem feli auk þess í sér aukið hljóðísog.
Verkleg framkvæmd
FSR óskaði eftir tilboðum í framkvæmdina í apríl 2012, fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis og Mosfellsbæjar.
Helstu magntölur voru áætlaðar:
- Vegg- og bitamót 8.400 m2
- Plötumót 4.100 m2
- Bendistál 244.000 kg
- Steinsteypa 2.500 m3
- Stálvirki 29.000 kg
- Málun innanhúss 9.200 m2
- Álundirkerfi og einangrun 1.700 m2
- timburklæðning á álkerfi 1.650 m2
- Viðsnúið þak 1.700 m2
- Þökulagning og sáningar 9.000 m2
Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 16. nóvember 2013.
Tilboð voru opnuð 10. maí 2012. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 1.225 m.kr. Tilboði verktakans Eykt ehf. var tekið 18. júní 2012 að upphæð krónur 1.019.545.870.- sem var 83,23% af kostnaðaráætlun.
Verktaki hóf framkvæmdir í júní 2012. Unnin var graftarvinna og uppsteypu sökkla og undirstaða við A-hús og B-hús var lokið. Í október 2012 var uppsteypu plötu við A-hús og bita yfir 1. hæð lokið og uppsteypa platna fyrir 2. hæð. Við B-hús var uppsteypa veggja á 1. hæð hálfnuð.