LSH Fossvogi, útveggir og gluggar A-álmu
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 533 0700
- Verkefnastjóri: Þorvaldur S. Jónsson
Um verkefnið
Verkefnið fólst í viðgerðum og endurbótum utanhúss á A-álmu Landspítala í Fossvogi, Reykjavík, sem unnar voru á árunum 2014 til 2015. Í gegnum árin hefur verið unnið að endurnýjun fasteignarinnar í nokkrum áföngum. Í þessum áfanga var ráðist í allsherjar viðgerðir og endurbætur á ytra byrði suðurhliðar og suðausturhorns, A-álmu. Viðgerðarsvæðið afmarkaðist frá innhorni við stórar svalir og út að suðausturhorni hússins.
Verkkaupi var Landspítali.Frumathugun
Rekstur og viðhald Landspítala í Fossvogi er hluti af heildaráætlun sem rekstrarsvið Landspítala hefur staðið að eftir frumathuganir á viðhaldsþörfum húsa. Framkvæmdasýslan hefur ekki komið að þessum frumathugunum.
Áætlunargerð
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði, með bréfi dagsettu 10. apríl 2014, að hefja mætti áætlunargerð fyrir umrædda framkvæmd. Hönnun þessi náði yfir utanhússviðgerðir sem snúa að viðgerðum á útveggjum suðurhliðar og halda í upphaflegt útlit hússins. Samið var við EFLU verkfræðistofu um hönnun verksins, en þeir höfðu einnig komið að ástandsskoðun og viðhaldshönnun á fyrri áföngum hússins. Þeir Sverrir Jóhannsson, fagstjóri fasteigna og viðhalds, og Jóhann Friðriksson burðarþolshönnuður sáu um verkefnið fyrir hönd EFLU verkfræðistofu, en Ragnar A. Birgisson hjá THG Arkitektum annaðist útlitsatriði.Verkleg framkvæmd
Kostnaðaráætlun nam 115 m.kr. Tilboð voru opnuð 29. apríl 2014. Alls bárust þrjú tilboð. Tilboði ÁS-Smíði ehf. var tekið 26. maí 2014 sem var 89,02% af kostnaðaráætlun. Framkvæmdir hófust í byrjun júní 2014. Verktaki byrjaði á aðstöðusköpun og var framkvæmdasvæðið girt af um miðjan júní, ásamt uppsetningu vinnupalla. Almenn brotavinna hófst í júlí 2014 og gluggaísetning í júlí og ágúst. Í september sama ár fór fram járnun og uppsteypa á svalagólfum og ísetning handriða. Í nóvember 2014 var 95% verks lokið, það er steiningu veggflata og kanta, múrviðgerðum og filteringu á 7. hæð og frágangi álglugga. Verkið var um 3–4 vikum á eftir áætlun. Skýringin á því er helst sú að verkbyrjun dróst í upphafi fram á vor.Verklok voru í desember 2014. Lokaúttekt FSR fór fram 19. desember 2014 og var án athugasemda. Þó þurfti að klára tiltekin atriði þegar hitastig leyfði sem var gert vorið 2015. Viðbótarverk við verk þetta var framkvæmt sumarið 2015, frá júlí til september. Úttekt byggingarfulltrúa fór fram 3. mars 2015. Ábyrgðarúttekt fór fram 5. apríl 2016.