Arnarhvoll - endurnýjun húsnæðis, 1. áfangi
- Verkkaupi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 509 0922
- Verkefnastjóri: Ívar Már Markússon
Um verkefnið
FSR vann frumathugun að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins um endurnýjun húsnæðis á Arnarhvoli. Verkefnastjóri var Bjargey Björgvinsdóttir, verkefnastjóri hjá FSR. Frumathugunin byggir meðal annars á frumathugun Glámu-Kím arkitekta frá mars 2012 og á skýrslu Eflu um ástand Arnarhvols frá febrúar 2013.Frumathugun
Frumathugun leiddi í ljós að gera þarf gagngerar endurbætur á Arnarhvoli, að utan sem innan. Ástand innanhúss er orðið slæmt og húsnæðið stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til skrifstofuhúsnæðis í dag. Skipulagi hússins er ábótavant og ekki aðgengilegt hreyfihömluðum. Brunavörnum er einnig ábótavant, enda hefur húsið ekki verið brunahannað miðað við kröfur nútímans. Vatns- og hitalagnir þarfnast endurnýjunar þar sem nýting á ofnum er ekki nema um 50%. Einnig er rafkerfi hússins orðið úrelt. Engin vélræn loftræsting er í húsinu og ekki næst að knýja fram fullnægjandi loftskipti í gegnum opnanleg fög á sumrin. Skjalageymslur eru ekki í samræmi við lög og reglugerðir. Ástand utanhúss er einnig slæmt. Lagfæra þarf frost- og ryðskemmdir sem og múrhúð. Þá eru gluggar og hurðir í lélegu ástandi. Þakið er þokkalegt, en þakjárn er þó víða farið að ryðga.
Hagkvæmast er að áfangaskipta framkvæmdunum til að raska sem minnst starfsemi hússins, þar sem of kostnaðarsamt þykir að flytja starfsemina á meðan á framkvæmdum stendur. Framkvæmdinni er því skipt niður í fjóra áfanga. Gert er ráð fyrir að heildarverkefnið nái yfir fjögurra ára tímabil og að á hverju ári sé hver áfangi tekinn fyrir.
Áætlunargerð
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði í maí 2013 að hefja mætti áætlunargerð fyrir umrædda framkvæmd. Þar sem fyrir lá ástandsskýrsla fyrir Arnarhvol gerðu hönnuðir samskonar en heldur umfangsminni ástandskönnun fyrir gamla Hæstaréttarhúsið. Niðurstöður þeirrar skoðunar var í takt við niðurstöður ástandsskoðunar á Arnarhvoli, nema gamla Hæstaréttarhúsið reyndist í enn verra ástandi en Arnarhvoll þar sem viðhald hefur verið fátíðara á því húsi.Almennt leiddu ástandskannanirnar tvær í ljós að steinsteypa í báðum húsum væri í nokkuð góðu ástandi en töluverðar skemmdir væru í múrhúð, sérstaklega í gamla Hæstaréttarhúsinu. Gluggar og hurðir væru í lélegu ástandi í báðum húsum, talsverðar fúaskemmdir í gluggatré, þéttingar og frágangur utan með gluggum væri lélegur og víða merki um leka innanhúss. Ástand þaks á Arnarhvoli væri þokkalegt þó þakjárn væri þar úr sér gengið, en þak á gamla Hæstaréttarhúsi væri ónýtt, enda hafði það lekið um árabil.
Verklýsing og teikningar voru unnar fyrir allsherjar endurbætur á ytra byrði beggja húsa. Fjarlægja átti lausan múr og gera við allar steypu- og múrskemmdir með varanlegum hætti. Skipta út öllum gluggum í báðum húsum og smíða þá í upprunalegri mynd. Fjarlægja járn af þaki Arnarhvols, gera við þakviði eftir þörfum og tryggja nægjanlega loftun þaksins. Á gamla Hæstaréttarhúsinu átti að endurnýja þak og einangra steypta þakplötu. Frágangur beggja þaka yrði með tvöföldum þakpappa sem endanlegt yfirborð. Þá átti að endursteina bæði húsin í heild sinni.
Þakviðgerðir. Þakrennur og niðurfallsrör áttu að vera úr sinki. Lögð var áhersla á að bæði húsin yrðu gerð upp í upprunalegri mynd. Vinna átti verkið, viðgerðir og endurbætur utanhúss á Arnarhvoli og gamla Hæstaréttarhúsinu í einum áfanga og voru verklok áætluð 1. maí 2014.
Ráðgjafar við verkefnið voru Gláma Kím arkitektar ehf. og EFLA verkfræðistofa hf.
Verkleg framkvæmd
Þar sem um endurbætur á tveimur húsum sem hafa menningar- og byggingarlistarsögulegt gildi er að ræða, sem gera átti upp í sem upprunalegastri mynd, var mikilvægt að til verksins myndu fást verktakar með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á endurbótum húsa af þessu tagi. Því var ákveðið að fara í lokað útboð að undangengnu forvali. Fimm verktakar skiluðu inn gögnum í forvalinu, en einungis einn verktaki, ÍAV hf., stóðst kröfur forvalsins. Því var einungis um eitt tilboð í verkið að ræða. Tilboð ÍAV var opnað 27. ágúst 2013. Því var tekið 24. september 2013 sem var 105% af kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun nam 284.287.850 kr.
Byrjað var að brjóta múr frá gluggum í portinu upp úr miðjum október 2013. Fyrstu gluggar komu á verkstað í byrjun desember. Fram að og samhliða gluggaskiptum var unnið að múrviðgerðum. Í febrúar 2014 náðist að loka báðum þökum að mestu. Hafist var handa við að endursteina Arnarhvol í porti í lok maí. Nokkur viðbótarverk komu til vegna fyrirhugaðra endurbóta innanhúss. Lokaúttekt byggingarfulltrúa var 19. nóvember 2014. Verklokaúttekt FSR var 18. nóvember 2014. Ábyrgðarúttekt fór fram í lok nóvember 2015.
Skilamat
Skilamat um Arnarhvol og gamla Hæstaréttarhúsið, utanhússviðgerðir, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2013 til 2014. Skilamatið og önnuur útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.