Háskólinn á Akureyri, 4. áfangi
- Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 602 0923
- Verkefnastjóri: Sigurður Hlöðversson
Um verkefnið
Verkefninu lauk árið 2010. Það fólst í nýbyggingu, alls um 2.300 m², sem byggð var á árunum 2007 til 2010 og er staðsett á lóð Háskólans við Norðurslóð á Akureyri. Í þessum áfanga voru fyrirlestrasalir og hátíðarsalur, auk smærri kennslurýma. Einnig frágangur á Háskólatorgi og bílastæðum. Framkvæmdin var hefðbundin verkframkvæmd, uppsteypt hús og fullnaðarfrágangur innanhúss sem utan.
Verkkaupi var menntamálaráðuneytið, nú mennta- og menningarmálaráðuneytið. Verkefnastjóri við framkvæmd og eftirlit var Sigurður Hlöðversson hjá Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR). Aðrir verkefnastjórar FSR sem komu að verkinu voru Sigurjón Sigurjónsson, Gíslína Guðmundsdóttir og Þráinn Sigurðsson.
Frumathugun
Frumathugun var unnin af Glámu/Kím arkitektum. Niðurstöður forathugunar vegna uppbyggingar Háskólans á Akureyri lágu fyrir með niðurstöðu samkeppni um framtíðarþróun að Sólborg við Norðurslóð. Áður hefur verið lokið við framkvæmdir við 1. áfanga (bókasafn HA), 2. áfanga (kennslu- og þjónustuhúsnæði) og 3. áfanga (skrifstofu- og þjónustuhúsnæði í eldri byggingum). Í samkeppnistillögu frá 1995 var gert ráð fyrir byggingu skrifstofurýma í hluta þessa áfanga, en til að svara mikilli þörf skólans um kennsluhúsnæði var hlutur þess aukinn og skrifstofurýmum frestað. Þessir áfangar hafa byggst upp í samræmi við niðurstöður forathugunar með eðlilegri endurskoðun við vinnu frumathugunar fyrir hvern áfanga.Áætlunargerð
Nýbyggingar Háskólans á Akureyri í þessum áfanga voru merktar meðbókstöfunum M, N, O, P og T, þar sem bygging T er tengigangur. Nýbyggingin tengist núverandi tengigangi T á öllum hæðum. Bygging M hýsir kennslustofur og fyrirlestrarrými. Bygging O hýsir forsal við fyrirlestrarrými og hátíðarsal á fyrstu hæð, snyrtingar og þjónusturými í kjallara. Bygging N hýsir aðalaðkomu gesta að háskólabyggingunni og hópaðstöðu á efri hæð. Bygging P hýsir hátíðarsal á fyrstu hæð og hópherbergi að hluta á annarri hæð.
Nýbyggingarnar eru steinsteyptar, einangraðar að utan og klæddar múrkápu. Á byggingunum er lítið hallandi þak, einangrun og dúkur eða pappi ofan á steypta plötu. Gólf- og þakplötur eru ýmist úr forsteyptum einingum eða staðsteyptar. Plasteinangrun er undir gólfplötum á fyllingu. Gluggar og hurðir eru úr ál-kerfi. Innveggir og loftaklæðningar eru gifsplötur á blikkgrind og í flokki I. Hljóðvistarklæðningar eru úr viðarlistum, meðhöndlaðar þannig að þær uppfylli ákvæði brunareglugerðar. Upphitun verður með gólfhita og ofnum. Loftræsing er í öllum byggingum. Loftræsisamstæður eru staðsettar í tæknirými í kjallara. Möguleiki er á reykræsingu í kjallara. Samningur um hönnun var gerður við Glámu/Kím, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. samkvæmt tilboði dagsett 29. júlí 2005 að fjárhæð 44.200.000 króna með virðisaukaskatti (vsk).
Samstarfsaðilar Glámu/Kím voru Almenna verkfræðistofan hf., tengiliður Úlfar Aðalsteinsson, Raftákn ehf., tengiliður Jóhannes Axelsson og Landslag ehf., tengiliður Þráinn Hauksson.
Verkleg framkvæmd
Boðin var út framkvæmdin Háskólinn á Akureyri 4. áfangi. Nýbyggingin er um 2.300 m² að stærð, en eftir að við verkið hófst var ákveðið að byggja kjallara undir hluta hússins sem stækkaði húsið í 2.700 m². Í samningskaupaferlinu voru ákveðnir tilboðsliðir varðandi framkvæmdir við lóð og bílastæði felldir út úr þeirri tilboðsskrá sem samið var um í verksamningi. Síðar var samið við verktaka um þessar framkvæmdir með nýjum verðtilboðum í einstaka verkþætti.
Þann 21. desember 2007 var tilboði Tréverks ehf. að fjárhæð 620.736.706 krónur með virðisaukaskatti tekið sem var 120,31% af kostnaðaráætlun. Gerður var skriflegur samningur um verkið í framhaldi af því að fjárhæð 596.482.706 krónur með virðisaukaskatti. Verksamningur var undirritaður á verkfundi 14.
febrúar 2008 og hófust verklegar framkvæmdir
fljótlega eftir það. Þeim lauk í ágúst 2010.
Skilamat
Skilamat um Háskólann á Akureyri, 4. áfangi, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2007–2010. Skilamatið og fleiri útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.