Fjölbrautaskóli Suðurlands - Stækkun verknámsaðstöðu
Stækkun verknámsaðstöðu
- Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 602 7300
- Verkefnastjóri: Áætlunargerð: Gíslína Guðmundsdóttir Verkleg framkvæmd: Ármann Óskar Sigurðsson
- Stærð mannvirkis: Viðbygging 1.653 fermetrar. Hamar 1.230 fermetrar
- Áætlaður kostnaður: 815.405.683 krónur
Um verkefnið
Verkkaupar voru, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sveitarfélagið Árborg, Héraðsnefnd Árnesinga, Héraðsnefnd Rangæinga og Héraðsnefnd Vestur-Skaftfellinga.
Umsjón hafði FSR. Verkefnastjóri frumathugunar og áætlanagerðar var Gíslína Guðmundsdóttir, en verkefnastjóri verklegrar framkvæmdar var Ármann Óskar Sigurðsson.
Frumathugun
Þann 8. mars 2012 var undirritaður samningur á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að Fjölbrautaskóla Suðurlands um stækkun á verknámsaðstöðu skólans. Í framhaldi var gerð frumathugun, þarfagreining unnin og byggingarnefnd skipuð. Niðurstaða frumathugunar var að viðbyggingin þyrfti að vera um 1.650 m2 og heildarkostnaður um 650 milljónir króna á verðlagi í janúar 2013.
Samkeppni
Efnt var til hönnunarsamkeppni um stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Niðurstöður voru kynntar 14. júní 2013, en alls bárust 25 tillögur frá íslenskum og erlendum arkitektastofum. Í samkeppninni var lögð áhersla á innri tengsl, sveigjanleika í skólastarfinu og að viðbyggingin félli vel að núverandi húsnæði, bæði innra fyrirkomulagi og ytra útliti.
1. verðlaun hlaut T.ark - Teiknistofan arkitektar ehf.
2. verðlaun hlaut Teiknistofa arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf.
3. verðlaun hlaut Arkitektastofan OG ehf.
Áætlanagerð
Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu var ákveðið að fresta áætlanagerð, en heimild fékkst til að hefja hana um mitt ár 2014. Samið var við höfunda verðlaunatillögunnar, T.ark - Teiknistofan arkitektar ehf., ásamt Mannvit, um fullnaðarhönnun stækkunar verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu).
Á áætlunargerðartímabilinu var ákveðið og fengin heimild til að núverandi verknámshús, Hamar, skyldi endurbætt og því breytt þannig að það, ásamt viðbyggingunni, mynduðu að lokum eina heild. Allir þátttakendur í hönnunarsamkeppninni höfðu lagt til það verklag.
Verknámshúsið Hamar er um 1.230 m2 og viðbyggingin 1.653 m2. Áætlaður heildarkostnaður við verklega framkvæmd var á þessu stigi um 250 milljónir króna á verðlagi í janúar 2014.
Heildarverkhönnun lauk í mars 2015 og var verkið boðið út þann 15. apríl 2015.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdin var boðin út í apríl 2015 sem fullhönnuð bygging. Tilvoð voru opnuð hjá Ríkiskaupum 6. maí sama ár og verkkaupi samþykkti 15. júní að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Jáverk ehf. Tilboð þeirra var 815.405.683 krónur sem var 104,94% af kostnaðaráætlun.
Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, tók fyrstu skóflustungu 8. júlí 2015 og hófust framkvæmdir í framhaldi af því.
Á árinu 2017 lauk ýmsum lokafrágangi og kaupum og uppsetningu á nýjum búnaði ásamt uppgjöri við verktaka vegna smíði viðbyggingar og endurbyggingar eldra húss verknámsaðstöðunnar Hamars.
Mannvirkið var hannað samkvæmt aðferðafræði BIM sem er einnig beitt við verklega framkvæmd.