Kvennaskólinn í Reykjavík, endurbætur Miðbæjarskólans
- Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 502 1900
- Verkefnastjóri: Örn Baldursson
Um verkefnið
Framkvæmdum er lokið við endurbætur í Miðbæjarskólanum í Reykjavík þar sem verður viðbótarhúsnæði Kvennaskólans í Reykjavík. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði kaupsamning við Reykjavíkurborg um húsið. Unnið var að hönnun endurbóta og breytinga hússins fyrir kennslu á framhaldsskólastigi.
Verkkaupi er Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg. Umsjón hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnisstjóri er Örn Baldursson. Ráðgjafar eru P ARK teiknistofa, sem annast arkitektahönnun, Verkís annast burðarþol og lagnahönnun, og Mannvit sem sér um raflagnahönnun. Verkið var boðið út í mörgum útboðum með verktaka sem aðild hafa af rammasamningum Ríkiskaupa. Verktakar eru Viðmið ehf., Rafvirkjar ehf., SOS lagnir ehf., Blikksmiðurinn ehf., Jón Vídalín Hinriksson dúklagningamaður, Þráinn Óskarsson múrari, Maggi og Daði Málarar, auk húsgagnaaðila.
Miðbæjarskólinn er tveggja hæða timburbygging á steinhlöðnum kjallara, byggður sem barnaskóli árið 1898, arkitekt var Christian Brandsrup. Byggingin er tæplega þrjúþúsund fermetrar að stærð og hefur undanfarið verið notað fyrir skrifstofur. Vegna friðunar innra borðs hússins er breytingum takmörk sett en í samráði við Húsafriðunarnefnd var leitast við að uppfylla það sem nauðsynlegt er fyrir skólahald. Gerðar verða lágmarksbreytingar sem einkum varða brunakröfur, loftræsingu og önnur viðmið.
Frumathugun
Í árslok 2008 fékk menntamálaráðuneytið Verkís til að meta ástand húsnæðis gamla Miðbæjarskólans í Reykjavík við Fríkirkjuveg 1 og kanna möguleika á að nýta það sem viðbótarkennslurými fyrir Kvennaskólann í Reykjavík. Aðalbygging skólans ásamt viðbyggingu er við Fríkirkjuveg 9. Jafnframt fólst í verkefninu að meta rýmið með tilliti til mögulegs fjölda nemenda og fyrirkomulags kennslurýmis. Lögð var fram greinargerðin Miðbæjarskólinn í Reykjavík, viðbótarhúsnæði fyrir Kvennaskólann, í nóvember 2009, sem er ítarleg athugun á stigi frumathugunar og inniheldur meðal annars úttekt, húsrýmisáætlun og frumuppdrætti.
Í úttekt kemur meðal annars fram að Miðbæjarskólinn er tveggja hæða timburbygging sem stendur á hlöðnum kjallara. Húsið var byggt sem barnaskóli 1898 og var það lengi, síðar var í húsnæðinu meðal annars Menntaskóllinn við Tjörnina, Námsflokkar Reykjavíkur og síðast skrifstofur Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Útveggir byggingarinnar eru lítið einangraðir, með timburklæðningu að utan og bárujárnsklæddir. Að innan eru veggir og loft klædd með upprunalegri panelklæðningu og hurðir eru flestar upprunalegar. Ljóst er að gera þarf ýmsar tæknilegar endurbætur þótt miðað sé við lágmarksaðgerðir meðal annars vegna brunavarna. Setja þarf vatnsúðakerfi í húsið og endurnýja loftræstisamstæður.
Með húsrýmisáætlun og tillögum að fyrirkomulagi er sýnt að hægt er að nýta húsnæði Miðbæjarskólans fyrir bóknámskennslu á framhaldsstigi fyrir allt að 300 nemendur með tilteknum lágmarksbreytingum. Lagt er til að hluti af skólastofum verði sameinaðar í stærri rými fyrir hefðbundna bóknámskennslu. Rætt var við skólayfirvöld Kvennaskólans um hugsanlega nýtingu hússins. Þá voru samskipti við Húsafriðunarnefnd vegna hugsanlegra þarfa á breytingum sem væru háðar leyfi nefndarinnar vegna friðunar sem er í gildi um húsnæðið. Gert ráð fyrir að með því að taka niður miðhluta veggja milli skólastofa fáist nokkrar nægilega stórar kennslustofur og nokkrar breytingar verða gerðar á síðari tíma innréttingum.
Niðurstaða frumathugunar er að mögulegt er að nýta húsnæði gamla Miðbæjarskólans sem viðbótarhúsnæði fyrir Kvennaskólann í Reykjavík þar sem kennslurými væri af svipuðum gæðum og núverandi rými í gamla hluta Kvennaskólans. Viðbótarkennslurými sem talið er að fáist er um 1.640 fermetrar en heildarstærð Miðbæjarskólans er um 2.790 fermetrar.
Kostnaðaráætlun á stigi frumathugunar vegna fyrrnefndra lágmarksbreytinga er um 150 milljónir króna á verðlagi í maí 2008.
Eftirfarandi þrjár myndir eru teknar fyrir breytingar.
Áætlunargerð
Verkefnastjóri FSR á stigi frumathugunar og áætlunargerðar var Jón H. Gestsson.
Arkitekt P ARK teiknistofu, Páll V. Bjarnason, var fenginn til að hanna breytingarnar ásamt verkfræðstofunni Verkís, sem annast burðarþol og lagnahönnun, svo og Mannvit sem sér um raflagnahönnun.
Arkitektar hafa lagt aðalteikningar fyrir byggingarnefnd. Í byggingarlýsingu kemur meðal annars fram eftirfarandi í styttu máli. Byggingin er þrjár álmur, vesturálma, norðurálma og suðurálma.
Í vesturálmu verða í kjallara tvær kennslustofur, það er gamla matreiðslustofan verður tölvuvinnustofa nemenda og gamla smíðastofan verður hópvinnurými. Snyrtingar verða endurbættar. Á 1. hæð vesturálmu verður afgreiðsla í stofu sem varðveitt verður í upprunalegri mynd. Þrjár stofur í upprunalegri stærð verða notaðar sem sérkennslu- og hópvinnurými. Einnig verða fjarlægðir nokkrir seinnitíma veggir. Á 2. hæð vesturálmu verða á tveim stöðum tvær stofur sameinaðar í eina, það er gerðar tvær kennslustofur úr fjórum, með því að taka milliveggi. Endastofurnar tvær verða þó áfram í upprunalegri gerð.
Í norðurálmu verða engar breytingar á 1. og 2. hæð nema að salurinn verður aftur notaður sem leikfimisalur. Í kjallara verða búningsklefar endurbyggðir og notaðir fyrir leikfimisalinn. Í suðurálmu verða á 2. hæð opnaðir tveir milliveggir til að sameina í stofur. Að öðru leyti verður hæðin óbreytt.
Á fyrri hluta árs 2011 var unnin fullnaðarhönnun. Miðað er við hönnun til örútboðs framkvæmda einstakra verkþátta innan rammasamninga Ríkiskaupa.
FSR veitti fjármálaráðuneytinu umsögn um áætlunargerð. Ríkissjóður keypti þann 17. nóvember 2010 60% hlut í byggingunni. Verkefnið er fjármagnað af verkaupum sem eru mennta- og menningarmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg. Heildarkostnaðaráætlun FSR, í febrúar 2011, er 200 milljónir króna, þar af er áætluð verkframkvæmd 135,0 m.kr. (þar af samningsgreiðslur 120,5 m.kr.), ráðgjöf 17,0 m.kr., verkumsjón og eftirlit 10,7 m.kr., gjöld og rekstur á framkvæmdatíma 3,1 m.kr. og búnaður 34,0 m.kr.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdir voru boðnar út í örútboðum innan rammasamninga Ríkiskaupa.
Verkefnastjóri FSR á stigi verklegrar framkvæmdar var Örn Baldursson arkitekt, eftirlit hjá FSR hafði Ívar Már Markússon.
Framkvæmdir eru boðnar út í örútboðum innan rammasamninga Ríkiskaupa. Um er að ræða lokuð örútboð meðal þeirra sem gert hafa rammasamning um viðhaldsþjónustu verktaka í iðnaði á höfuðborgarsvæðinu, sjá vef Ríkiskaupa. Ríkiskaup önnuðust útboðin og sendu aðilum upplýsingar um þau. Tengiliður hjá Ríkiskaupum var Gísli Þór Gíslason og síðar Hjalti Jón Pálsson.
Eftirfarandi eru útboðsverkefni vegna endurbóta Miðbæjarskólans í Reykjavík og aðilar sem tilboð var tekið hjá.
- Raflagnir: Rafvirkjar ehf.
- Lagnir: SÓS lagnir ehf.
- Loftræsing: Blikksmiðurinn ehf.
- Trésmíði: Viðmið ehf.
- Dúklögn: Jón Vídalín Hinriksson.
- Múrverk: Þráinn Óskarsson.
- Málun: Maggi og Daði Málarar
- Húsgögn: Penninn, Nýform, Á. Guðmundsson, Bender, A4 og EG
- Merkingar: Logoflex.
Kennsluaðstaðan á 1. og 2. hæð og íþróttasalurinn voru tilbúin 22. ágúst 2011, en fyrirlestrarsalurinn var tekinn í notkun seinna um haustið.