Landspítali Grensásdeild - bílskýli og lóðarlögun
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 508 3505
- Verkefnastjóri: Þórir Jónsson
Lokið hefur verið við framkvæmdir við bílskýli og lóðarlögun við Grensásdeild Landspítala. Verkið var var boðið út í ágúst 2011 og lauk því sumarið 2012.
Verkkaupi var Landspítali fyrir hönd velferðarráðuneytisins en Hollvinir Grensásdeildar fjármögnuðu verkefnið að miklu leyti. Umsjón með framkvæmdunum hafði FSR, verkefnastjóri var Þórir Jónsson. Verktaki var Hálsafell ehf.
Frumathugun
Við Grensásdeild Landspítala, að Grensásvegi 62, var þörf á endurnýjun lóðar til að bæta lóðina umhverfislega og með tilliti til þarfa fatlaðs fólks. Ekki var unnin formleg frumathugun en gögn voru lögð fram um stöðu verkefnisins á því stigi og tillögur sem Landspítalinn, fyrir hönd velferðarráðuneytisins, lét gera til að leysa þessi mál sem náði til lóðarfrágangs og bílskýlis.
Í umsögn um frumathugun, dagsettri 8. febrúar 2011, sem FSR vann fyrir fjármálaráðuneytið, kemur fram að verkefnið miðaðist við að gera gagngerar endurbætur á mestallri lóðinni, sem eru um 1.400 fermetrar, og að byggja bílskýli yfir bílastæði fatlaðra. Miðað var við að stæði fyrir fatlaða yrðu 12 við aðkomu og 7 sleppistæði við aðalbyggingu, innkoma inn á aðkomusvæði víkkuð og sett upp lítið miðjutorg til að stýra umferð og fegra aðkomusvæðið. Þá segir í umsögninni að hönnunarlausnin sé skýr og þjóni vel tilgangi sínum. Heildarkostnaðaráætlun á stigi frumathugunar nam 56 m.kr.
Áætlunargerð
Landspítalinn lét hanna bílskýli og lóðarlögun við Grensásdeild Landspítala á grundvelli fyrri hugmynda og unnin var fullnaðarhönnun til útboðs. Aðalhönnuður var THG ehf., það er Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar ehf.
Á aðalteikningu kemur fram að bílskýlið liggur frá aðalbyggingunni til suðurs. Stærð þess er 284,5 fermetrar. Bílastæðin í bílskýlinu eru 12 talsins. Lóðarfrágangur miðast við að gera svæði sunnan við bygginguna aðgengilega fyrir hreyfihamlaða.
Í umsögn um áætlunargerð, dagsettri 3. ágúst 2011, sem FSR vann fyrir fjármálaráðuneytið, segir meðal annars eftirfarandi:
„Verkið felst í byggingu bílskýlis og frágangi lóðar framan við aðalinngang Grensásdeildar Landspítala að Grensásvegi 62. Byggja skal bílskýli að mestu úr stáli, steypu og gleri sem myndar skjól fyrir sjúklinga sem sækja deildina. Þá skal samhliða endurnýja lóð og aðkomu framan við aðalinngang og bílskýli. Aðgengi um aðalinngang verður að mestu opið á framkvæmdatíma en annars verður umferð beint um norðurinngang hússins.“
FSR annaðist yfirferð útboðsgagna og gerði athugasemdir við þau. Athugað var samræmi á milli verklýsingar og magnskrár. Einnig var athugað hvort gögn uppfylltu kröfur laga og reglugerða varðandi útboð og hvort samþykki viðkomandi byggingaryfirvalda lægi fyrir. Ekki var tekin afstaða til hönnunarlausna.
Heildarkostnaðaráætlun FSR, dagsett í ágúst 2011, sem byggði meðal annars á framkvæmdakostnaðaráætlun sem hönnuðir lögðu fram, nam samtals 57,8 m.kr., þar af verkframkvæmd 49,5 m.kr. (samningsgreiðslur 48,7. m.kr. og aukaverk 0,8 m.kr.).
Fjármögnun er samkvæmt upplýsingum Landspítala greidd með fjárveitingu velferðarráðuneytisins og með framlagi samtakanna Hollvinum Grensásdeildar.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdirnar voru auglýstar til útboðs 6. ágúst 2011 þar sem FSR, fyrir hönd Landspítala, óskaði eftir tilboðum í verkið Landspítali Grensásdeild, bílskýli og lóðarlögun. Þar segir meðal annars eftirfarandi:
Verkið felst í byggingu bílskýlis og frágangi lóðar framan við aðalinngang Grensásdeildar Landspítala að Grensásvegi 62. Byggja skal bílskýli að mestu úr stáli, steypu og gleri sem myndar skjól fyrir sjúklinga sem sækja deildina. Þá skal samhliða endurnýja lóð og aðkomu framan við aðalinngang og bílskýli. Frágangi lóðar skal vera lokið eigi síðar en 1. nóvember 2011. Byggingu bílskýlis skal vera lokið eigi síðar en 20. desember 2011.
Tilboð voru opnuð 22. ágúst 2011. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 49.470.000 krónur. Þann 12. september 2011 var tilboði Hálsafells ehf. tekið að upphæð 59.998.500 krónur sem var 21,28% yfir kostnaðaráætlun.
Hálsafell ehf. hóf verkið 12. september 2011. Framkvæmdum lauk að mestu leyti vorið 2012 og var lokið að fullu sumarið 2012.
Skilamat
Skilamat um Landspítala Grensásdeild, bílskýli og lóðarlögun, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdir við endurbæturnar voru unnar á árunum 2011 til 2012. Skilamatið og önnur útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.