9. júní 2022

Nýjungar í innkaupum á opinberum framkvæmdum kynntar á Grand hótel

FSRE kynnti nýjar leiðir í innkaupum á opinberum framkvæmdum á ráðstefnu sinni á Grand hótel sem fram fór í morgun. Ráðstefnuna sóttu gestir úr byggingageiranum og stjórnsýslunni.

Á fundinum kynnti starfsfólk stofnunarinnar hvernig samstarfsleið verður farin í flókinni uppbyggingu á Litla-Hrauni og hvernig samkeppnisútboð verður notað við hönnun nýs 26.000 fermetra húsnæðis viðbragðs- og löggæsluaðila hjá Kleppsspítala.

Á fundinum talaði einnig Jonni Laitto frá Senaatti, systurstofnun FSRE í Finnlandi. Finnar eru framarlega í þróun á innkaupaaðferðum og þróun á opinberum byggingum. Kynnti hann hvernig stofnun hans hefur þróað samstarfsleið í opinberum framkvæmdum.

Samstarfsleið sem Senaatti notar byggir á gagnkvæmu samkomulagi/bandalagi verkkaupa og aðalverktaka. Vertaka er tryggð föst áhættulaus framlegð. Auk þess sem verktaki getur fengið greiddar árangursgreiðslur tengda tíma- og kostnaðaráætlun, öryggi og fleiru sem verkkaupi ákveður áður en verkefni hefst.

Ábyrgð á kostnaðar- og tímaáætlun liggur hjá verkkaupa. Helsta einkenni samstarfsleiðar er að allar ákvarðanir aðila innan bandalagsins eru samhljóða – þau sem koma að verkefninu þurfa að ræða málin þar til sameiginleg niðurstaða er fengin í hverju álitamáli.

Samstarfsleið hentar sérstaklega í flóknum verkefnum, þar sem til dæmis starfsemi helst órofin á verkefnatíma, í viðbyggingum og verkefnum þar sem óvissuþættir eru margir. Senaatti hefur notað samstarfsleið í flestum stærri verkefna sinna undanfarin tíu ár.FSRE hefur ákveðið að fara samstarfsleið í fyrirhuguðum framkvæmdum á Litla Hrauni. Verkefnið er flókið, en hefðbundin starfsemi verður í fangelsinu á meðan á framkvæmdum stendur. Nú stendur yfir forval hönnuða, en niðurstaða úr því er væntanleg 15. Júní. Allt að fimm teymi verður boðið til að taka þátt í lokuðu útboði, sem samanstendur af skissutímabili í samvinnu við notendur ásamt tilboði í verði í fullnaðarhönnun. Gert er ráð fyrir að forval verktaka hefjist í ágúst og samstarfsaðili valinn í október.

Erindi ráðstefnunnar má finna hér

FSRE-radstefna-Nyjar-leidir-naudsyn-nyskopunar - Guðrún Ingvarsdóttir

FSRE-Innkaupaleidir-og-utbodsform - Hildur Georgsdóttir

FSRE-radstefna-Litla-Hraun-Samstarfsleid - Hannes Frímann 

FSRE-radstefna-Hannes-HVH - Hannes Frímann


Fréttalisti