12. ágúst 2022

Litla-Hraun: Betri aðstaða til betrunar

Í vikunni hófust fjögur teymi arkitekta, verkfræðinga og annarra hönnuða handa við að hanna umfangsmiklar breytingar á aðstöðu fangelsisins á Litla-Hrauni. 

Fangelsið Litla-Hrauni var stofnað 8. mars 1929 og hefur starfað samfellt síðan. Fangelsið fékk til afnota húsnæði sem byggt hafði verið eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar og ætlað sem sjúkrahús Sunnlendinga.

Fangelsið er lokað fangelsi með 9 deildir fyrir allt að 87 karlfanga. Þar starfa 57 starfsmenn, fangaverðir sem sinna almennri fangavörslu og verkstjórn, auk skrifstofufólks, meðferðarfulltrúa, starfsmanna í eldhúsi og verslun.

Markmið framkvæmdanna nú er að bylta aðstöðu fangelsisins. Litla Hraun er stærsta fangelsi landsins, en aðstaða fyrir fanga og starfsfólk er fjarri því að vera í takt við kröfur nútímans. Ætlunin er að öryggi og vellíðan starfsfólks og fanga aukist verulega með fyrirhuguðum breytingum og að fangelsið verði betur fallið til að stuðla að betrun fanga.

Gert er ráð fyrir að byggðar verði allt að þrjár nýbyggingar á svæðinu ásamt breytingum og endurbótum á núverandi húsum. Áætlað er að nýbyggingar fyrir starfsemina verði um 1.300 m2 og endurgerð á um 2.000 m2 núverandi húsnæðis. Þá verður einnig ráðist í lagfæringar á lóð og umhverfi.

Verkefnið er flókið, því fangelsið verður starfrækt á framkvæmdatímanum. Verkefnið verður unnið með svokallaðri samstarfsleið, sem systurstofnun FSRE í Finnlandi hefur notað um árabil með góðum árangri.

Kjarni samstarfsleiðar felst í sameiginlegri ábyrgð verktaka, verkkaupa og notenda. Þessir þrír aðilar mynda bandalag sem á að tryggja að allar ákvarðanir séu verkefninu til heilla og starfa saman með heiðarleika og traust í samskiptum að leiðarljósi.

Í júní fór fram forval þar sem fjórir aðilar voru valdir til þátttöku í lokuðu útboði um fullnaðarhönnun á nýbyggingum, breytingum og endurbótum á Litla hrauni. Aðilarnir sem valdir voru til samstarfs eru:

o Arkís ásamt Verkís og Landhönnun

o Hornsteinar arkitektar ehf. ásamt Lotu

o VA Arkitektar ehf. ásamt Mannviti og Betula landslagsarkitektum

o VSÓ Ráðgjöf ehf. ásamt Grímu arkitektum og Tendru

Þessir vinnuhópar munu á næstu vikum eiga í víðtæku samráði við notendur og verkkaupa og skila í lok ágúst skissutillögum að hönnun og skipulagi nýbygginga, breytinga og endurbóta á Litla Hrauni ásamt tilboði í þóknun fyrir fullnaðarhönnun áog deiliskipulagsgerð.

Í útboðinu verður viðhaft tveggja þrepa kerfi, þar sem fyrst er lagt mat á innsendar tillögur og síðan að loknu mati tillagnanna eru verðtilboð opnuð. Hver þátttakandi í útboðinu, sem sendir inn fullgilda tillögu og tilboð að mati matsnefndar, fær greitt fyrir skissutillögugerð og tilboðsgerð kr. 2.000.000,- að viðbættum virðisaukaskatti.

Áætlað er að um 15. september liggi fyrir val hönnuða í þessu spennandi verkefni. 


Fréttalisti