27. janúar 2022

Alþingisbygging á áætlun þrátt fyrir áskoranir

Framkvæmdir við skrifstofubyggingu Alþingis hafa gengið prýðilega í vetur. Um þessar mundir er verið að steypa þriðju hæð byggingarinnar af fimm. 

Uppsteypa byggingarinnar hófst að loknum jarðvegsframkvæmdum og útboði í október 2020 og hefur því staðið í rúmt ár. Í upphafi sumars má búast við að húsið hafi tekið á sig nær endanlega mynd að utan.

Húsið er komið vel upp úr jörðinni og farið að taka á sig mynd á Alþingisreitnum gegnt Ráðhúsinu. Byrjað er að loka húsinu og kynda upp kjallara þar sem innivinna hafin. Stefnt er að ljúka uppsteypu í byrjun sumars og hefst þá einangrun og klæðning hússins að utan. Húsið verður verður klætt með fimm íslenskum bergtegundum í ákveðnum lögum.

Óhætt er að segja að talsverðar áskoranir hafi mætt framkvæmdaaðilum á framkvæmdatímabilinu. Ber þar fyrst að nefna mikla nálægð við mikilvægar byggingar; Alþingi og Ráðhús Reykjavíkur. Byggingareiturinn er mjög lítill og olnbogarými á byggingarstað vægast sagt takmarkað. Mikil og flókin sjónsteypa er í húsinu og ítrustu kröfur gerðar til fagkunnáttu starfsmanna.

Til þessa hefur verkstaðurinn sloppið nokkuð vel við tafir af völdum veirunnar skæðu. Þó hafa verið blikur á lofti undanfarnar vikur þar sem æ fleiri starfsmenn hafa lent í sóttkví. Þá hafa verktakar upplifað tafir á aðföngum erlendis frá.




Fréttalisti