17. júlí 2022

Kraftur í framkvæmdum á Klaustri og Hellissandi

Mikill gangur er nú í framkvæmdum við húsnæði Snæfells- og Vatnajökulsþjóðgarða á Hellissandi og á Kirkjubæjarklaustri.

Nú þegar ferðafólk þeysist um landið þvert og endilangt, er full ástæða til að varpa ljósi á tvær byggingar sem nú rísa undir merkjum FSRE.

Á Hellissandi hyllir nú undir lok byggingar þjóðgarðsmiðstöðvar Snæfellsþjóðgarðs. Fjallað var um framkvæmdirnar í september sl.

Byggingin mun hýsa þjónustumiðstöð þjóðgarðsins með sýningar- og kennsluaðstöðu, auk rýma fyrir starfsmenn þjóðgarðsins, svo sem skrifstofur, geymslur og aðstöðu fyrir þjóðgarðsverði, alls um 710 fermetrar. Kostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður ríflega 600 milljónir króna. Er það verktakafyrirtækið Húsheild sem byggir og hafa framkvæmdir gengið vel. Þjónustumiðstöðin er alls um 700 fermetrar og verður kærkomin aðstaða fyrir þjónustu þjóðgarðsins við ferðafólk. Byggingin er hönnuð af Arkís, en stofan sigraði hönnunarsamkeppni sem fór fram árið 2006.

Byggingin verður umhverfisvottuð, en samhliða byggingaferlinu fer fram vottunarferli í samstarfi við BREEAM stofnunina.

Innivinna er í fullum gangi á Hellissandi.

Á Kirkjubæjarklaustri rís nú Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs. Gestastofan mun þjóna upplýsingargjöf til ferðamanna um þjóðgarðinn og nágrannasvæði hans, auk þess sem þar verður vönduð fræðslusýning um náttúru og mannlíf svæðisins. Byggingin á einni hæð með kjallara undir hluta hennar. Mun hún falla vel að landinu og verður þakið lagt með torfi. Nú þegar er uppsteypu hússins að mestu lokið og frágangur inni í byggingunni að hefjast. Byggingin er 765 fermetrar að stærð, en kostnaður er áætlaður 852 milljónir króna. 

Gestastofan er hönnuð af Arkís og verður líkt og þjónustumiðstöðin á Hellissandi BREEAM umhverfisvottuð.

Hér má sjá framkvæmdasvæðið við Skaftá úr lofti. 

Unnið var af krafti í vikunni í góða veðrinu á Klaustri.

Þessar framkvæmdir eru liður í uppbyggingu ríkisins á ferðamannastöðum víðsvegar um land. Á undanförnum misserum hafa staðið yfir framkvæmdir við göngustíga sem auðvelda aðgang að náttúruperlum á borð við Gullfoss, Geysi, Dynjanda og Dyrhólaey.


Fréttalisti